Það hefur verið höggvið stórt skarð í hóp okkar hestamanna sem verður ekki fyllt. Þann 19. desember síðastliðinn lést Stefán Friðgeirsson.
Stefán, já eða Stebbi Friðgeirs eins og hann var nú oftast kallaður er hestamönnum vel kunnugur. Stebbi var mikill hestamaður frá unga aldri. Það má segja að hann hafi verið fyrirmyndar hestamaður í alla staði. Það er alveg sama hvert er litið. Hvort það var að ríða út og þjálfa, hestaferðir, keppni, sinna félagsstarfi og uppbyggingu, koma vel fram við fólk eða bjóða í kaffi og ræða um daginn og veginn, segja sögur og sumar jafnvel aftur og aftur. Hann var alltaf tilbúinn ef það vantaði hjálparhönd. Hann var áhugasamur um aðra og mikil fyrirmynd fyrir unga sem aldna. Hann var þessi hestamaður sem við ættum öll að reyna að vera. Hann gerði allt og hafði allt það sem fyrirmyndar hestamaður þarf að hafa. Hann var okkar samfélagi í Hestamannafélaginu Hring alveg ótrúlega dýrmætur.
Hann var alla tíð mikill félagsmaður. Hann var einn af stofnendum Hestamannafélagsins Hrings sem var stofnað árið 1962. Hann gegndi bæði formennsku og fjölda nefndarstarfa á vegum félagsins alla tíð. Hann var gerður að heiðursfélaga Hrings árið 2012 og fékk heiðursviðurkenningu íþróttar og æskulýðsráðs Dalvíkurbyggðar árið 2014, fyrir störf sín fyrir félagið og frábæran árangur á keppnisvellinum. En fyrir utan að vera án nokkurs vafa mesti afreksmaður Hrings, sem hefur verið kjörinn íþróttamaður Hrings oftar en nokkur annar, eða 11 sinnum, þá hefur hann líka verið mikill drifkraftur í öllu mótahaldi félagsins, allt til síðasta móts sumarsins 2021. Og var að sjálfsögðu enn að keppa við þá bestu. Það skipti engu hvort um væri að ræða Íslandsmótin 2 sem Hringur hefur haldið eða firmakeppnir og minni mót. Hann var alltaf mættur til að undirbúa og starfa við mótin og eða keppa. Og aldrei skildi hann gera neitt með hangandi hendi. Það var ekki hans stíll og hann vildi ekki taka þátt í svoleiðis mótahaldi eða koma fram í keppni illa undirbúinn. Hann var metnaðarfullur í öllu sem hann gerði.
Keppnisferillinn var langur og glæsilegur og munu margir minnast Stebba á eða í kringum keppnisvöllinn. Marga hesta hefur hann setið og suma hverja sem skilja eftir sig djúp spor í íslenska hrossastofninum. Einhverjir minnast hans kannski á Baldri frá Bakka, eða Sólon frá Hóli. En flestir eiga sennilega eftir að minnast hans á gæðingnum Degi frá Strandarhöfði. Ferill þeirra tveggja er einstakur og afrekin mörg. Hér væri hægt að telja upp langan lista af úrslitum en sú staðreynd að þeir Stefán og Dagur voru í efsta sæti á heimslistanum í fimmgangi 2 ár í röð segir allt sem segja þarf um gæði þeirra tveggja. Samband þeirra var einstakt og þeir sem þekkja til vita að fyrst og fremst fóru þar saman miklir vinir þar sem ríkti mikil virðing og traust á báða bóga.
Það er með miklum trega sem við kveðjum Stefán Friðgeirsson. Hans verður minnst af góðu einu. Við minnumst dugnaðar, eljusemi, jákvæðni, vináttu, frábæru hugarfari og allra þeirra góðu stunda sem við fengum að njóta með Stebba. Við kveðjum nú vin okkar allra. Minningin um þennan frábæra mann mun lifa áfram um ókomna tíð.
Hestamannafélagið Hringur sendir fjölskyldu og vinum Stefáns Friðgeirssonar sínar dýpstu samúðarkveðjur.