Verðlaunahafar Hrings og Hrossaræktarsambandsins
Um helgina fór fram uppskeruhátíð Hrings, að vanda var vel mætt og sátu 62 til borðs og nutu matar og skemmtunar.
Við í Hring erum svo heppin að eiga góða keppnismenn sem hafa verið að keppa fyrir félagið undanfarin ár. Á þessu ári hafa sérstaklega fjórir aðilar verið í eldlínunni og hafa verið að ná góðum árangri. Í stafrófsröð eru það Anna Kristín Friðriksdóttir, Bjarki Fannar Stefánsson, Guðröður Ágústsson og Svavar Örn Hreiðarsson, allir þessir keppendur eiga hrós skilið fyrir góðan árangur á árinu.
Anna Kristín var með góðan árangur á þeim Korku frá Litlu-Brekku og Væng frá Grund en það voru keppnishross hennar á þessu ári. Á Væng náði hún þrisvar sinnum yfir 8,5 í A-flokki og var í úrslitum á honum á Fjórðungsmótinu í sumar.
Bjarki Fannar var einnig mjög duglegur á keppnisbrautinni og er með 17 skráningar með árangri þar má geta þess að á Þyt frá Narfastöðum náði hann 7,05 í Tölti T1. Bjarki Fannar vann Æskulýðsdeild Léttis og var fimmti í stigakeppni Léttismótaraðarinnar.
Guðröður var með fjögur hross í keppnum þetta árið árangur hans er m.a. að á Faxa frá Mýrum vann hann ísmót Hrings, með Nýgínu frá Hryggstek náði hann 6,83 í Tölti T1.
Svavar Örn er með 23 skráningar með árangri og hefur hann sérstaklega verið að keppa í skeiðgreinunum og er hann með árangur á 6 hrossum. Hann sigraði A-flokk Hrings á Sprota frá Sauðholti og náði þar einkuninni 8,62. Á skeiðbrautinni náði hann bestum árangri með Skreppu frá Hólshúsum í 100m skeiði 7,75 sek. Sjö sinnum náði hann fyrsta sæti, tvisvar öðru sæti og þrisvar þriðja sæti.
Svavar Örn Hreiðarsson er íþróttamaður Hrings 2019 með 420,27 stig.
Knapi Hrings 2019 varð Bjarki Fannar Stefánsson.
Hringsfélaginn 2019 var valinn Anton Hallgrímsson, sérstaklega fyrir alla þá vinnu sem hann hefur lagt félaginu til ásamt Ferguson 35X. En þeir félagar hafa verið duglegir í snjóblæstri og slætti á og við reiðvegi félagsins bæði beðnir og óbeðnir.
Hrossaræktarfélag Svarfaðardals og nágrenis veittu sínar viðurkenningar fyrir árið 2019.
Stjórn Hrings gerði svo tvo félaga að heiðursfélögum fyrir óeigingjarnt starf í þágu félagsins undanfarna áratugi það voru þeir Steinar Steingrímsson og Sigurður Marinósson.
Dandi prufukeyrði svo Blub-kviss á okkur í lokin, var það mjög góð skemmtun sem verður örugglega endurtekin.